Hoppa yfir valmynd
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

3/2022 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2024, 4. janúar, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Elvar Jónsson lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson lögfræðingur málinu 

nr. 3/2022

A

gegn

Háskóla Íslands

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A, dags. 8. september 2022. Þar er kærður úrskurður háskólaráðs Háskóla Íslands („“ eða „skólinn“) frá 9. júní 2022 þar sem kröfum kæranda um ógildingu á ákvörðun forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ frá 7. desember 2021, þar sem henni var gert að hætta námi, var hafnað. Í úrskurði HÍ var jafnframt hafnað kröfum kæranda um að deildarforseti, settur deildarforseti og nefndarmenn doktorsnefndar yrðu taldir vanhæfir til að koma að málinu, auk þess sem hafnað var kröfum kæranda um viðurkenningu á því að ágallar hafi verið ákvörðun doktorsnefndar, dags. 7. október 2021, um að heimila kæranda ekki að taka miðbikspróf öðru sinni.

Í kæru til nefndarinnar óskar kærandi þess að nefndin úrskurði um eftirfarandi atriði:

  1. Málsmeðferð setts deildarforseta í máli kæranda sem lauk með ákvörðun, dags. 7. desember 2021, um að kærandi fengi ekki að endurtaka miðbikspróf í doktorsnámi kæranda og að kæranda væri gert að hætta námi við Umhverfis- og byggingafræðideild HÍ.
  2. Hvort að kærandi eigi rétt á skýringum á niðurstöðu prófdómara á miðbiksprófi.
  3. Höfnun háskólaráðs á kröfu kæranda um ógildingu ákvörðun setts deildarforseta þess efnis að kæranda væri gert að hætta námi sínu við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ.
  4. Hæfi C, leiðbeinanda kæranda, og doktorsnefndar kæranda.
  5. Hæfi deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar HÍ.
  6. Hæfi setts deildarforseta í máli kæranda.
  7. Hlutverk og ábyrgð rektors HÍ varðandi hæfi deildarforseta og setts deildarforseta í máli kæranda.

Athugasemdir HÍ bárust 31. október 2022 þar sem kröfum kæranda var hafnað og vísað var til þeirra röksemda sem fram kæmu í niðurstöðu HÍ frá 9. júní 2022 og niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda frá 31. maí 2022 í máli nr. 1/2022. Nefndin fundaði með málsaðilum vegna málsins 4. apríl 2023. Í kjölfar fundarins sendi kærandi nefndinni tvö ný skjöl.

Með bréfi, dags. 22. maí 2023, barst nefndinni álit umboðsmanns Alþingis er varðaði kvörtun kæranda yfir úrskurði nefndarinnar 14. mars 2022 í máli nr. 4/2021 þar sem komist hafði verið að þeirri niðurstöðu að það félli utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um hæfi setts deildarforseta og deildarforseta við meðferð málsins fyrr en málið hefði til lykta leitt efnislega hjá HÍ. Í bréfinu gerði umboðsmaður athugasemd við þessa afgreiðslu nefndarinnar og beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að taka mál kæranda til meðferðar að nýju kæmi fram beiðni þess efnis frá kæranda. Með tölvupósti þann 25. maí sl. óskaði kærandi eftir endurupptöku á úrskurði nefndarinnar í framangreindu máli kæranda gegn HÍ nr. 4/2021 í samræmi við tilmæli umboðsmanns.

Þar sem fyrir nefndinni lá þegar sú kæra sem fjallað er um hér að ofan ákvað nefndin að sameina þessi tvö mál, þ.e. kæru kæranda, dags. 8. september 2022, og endurupptöku máls nefndarinnar í máli nr. 4/2021. Kæruefni í máli 4/2021 varða sömu atriði og tiltekin eru í kæru kæranda í máli þessu og því rétt að mati nefndarinnar að afgreiða kæruna og endurupptökubeiðni kæranda samhliða með þessum úrskurði.

II.

Málsatvik

Kærandi hóf doktorsnám við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild á árinu 2013. Fjallaði verkefni hennar um jarðskjálftaáhrif á niðurgrafnar lagnir eftir Suðurlandsskjálftann 2008. Doktorsnám kæranda var skipulagt sem þriggja ára nám sem taldi 210 staðlaðar einingar.

Leiðbeinandi kæranda og formaður doktorsnefndar, eða doktorsnámsnefndar, sem skipuð var um verkefnið, var B. Aðrir í nefndinni voru C, fræðimaður við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ, og D, prófessor við Luyben Karavelov háskóla í Búlgaríu.

Árið 2015 féll B frá og árið 2016 tók áðurnefndur C við hlutverki leiðbeinanda og E, rannsóknarprófessor og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftafræðum, kom inn í nefndina.

Styrkveiting RANNÍS

Á árinu 2017 fékk kærandi styrk frá RANNÍS vegna doktorsverkefnisins og í tilefni af því var gerður samningur milli RANNÍS og kæranda um fjármögnun verkefnisins, sem einnig var undirritaður af áðurnefndum E.

Skömmu síðar kom upp ágreiningur upp milli kæranda og deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar, um útgreiðslu styrksins til kæranda. Þannig upplýsti deildarforseti að ekki væri fallist á að hið styrkta verkefni færi af stað fyrr en doktorsnefnd og deild hefðu samþykkt náms- og verkáætlun fyrir það. Þá yrði kærandi að ljúka miðbiksprófi (framvinduprófi) áður en verkefnið færi af stað. Hafnaði deildarforseti því að greiða styrkinn út að svo stöddu. Þá var því einnig hafnað að meta styrkumsókn til RANNÍS sem framvindupróf líkt og kærandi hafði óskað eftir.

Í samskiptum aðila kom jafnframt fram að kærandi þyrfti að taka ákvörðun um að annað hvort hætta doktorsnáminu, og HÍ skilaði þá styrknum til RANNÍS, eða taka sig á, fara að sinna náminu, lúta leiðbeiningum doktorsnefndar og standa skil á þeim áföngum sem kæranda bæri.

Seinni hluta júnímánaðar 2017 sendi kærandi RANNÍS tölvupóst með ósk um aðstoð þar sem hún fengi útgefinn reikning sinn ekki greiddan. Hinn 3. júlí 2017 sendi starfsmaður RANNÍS fyrirspurn til leiðbeinanda kæranda þar sem greint var frá kvörtun kæranda og óskað eftir skýringum. Hinn 4. s.m. svaraði fjármálastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ póstinum. Var því lýst að sviðið byði doktorsnemum sem hlytu styrki til doktorsnáms að gera samning við skólann um mánaðarlegar launagreiðslur en því hefði kærandi hafnað. Þá hafi sviðið boðið kæranda að gera samkomulag um verktakagreiðslur sem byggðu á framvindu en kærandi hefði einnig hafnað því. Því hefði HÍ hvorki getað hafið launagreiðslur né heldur getað greitt henni sem verktaka. Í ljósi þess og annarra ástæðna var upplýst að ekki væri unnt að vinna verkefnið við sviðið. Í niðurlagi póstsins sagði að Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ óskaði af þessum ástæðum eftir riftun samnings um styrkinn og að skila þeirri greiðslu sem RANNÍS hefði þegar sent skólanum. Þá óskaði C eftir því að hætta þátttöku í verkefninu, hann drægi nafn sitt til baka af styrkumsókninni og óskaði eftir því að umsóknin og styrkurinn yrði felldur niður. Í kjölfarið endurgreiddi Verkfræði- og náttúruvísindasvið styrkinn til RANNÍS.

Hinn 5. júlí 2017 tilkynnti fjármálastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs kæranda símleiðis að RANNÍS-styrkurinn hefði verið endurgreiddur. Kærandi sendi fjármálastjóra tölvupóst 6. s.m. og benti á að fyrir lægi samningur um styrkinn og óskaði eftir skýringum á því hvers vegna hann hefði verið endurgreiddur. Í svari til kæranda upplýsti fjármálastjórinn að HÍ hefði þegar veitt skýringar á þessari ákvörðun sem hefði orsakast af háttsemi hennar. Varðandi nánari skýringar var henni vísað á leiðbeinanda. Þann 10. s.m. sendi kærandi á ný tölvupóst á fjármálastjóra og sagðist ekki hafa séð neitt skriflegt um þessa ákvörðun og óskaði eftir því að fá hana senda. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að kærandi hafi fengið frekari skýringar eða tilkynningar vegna málsins.

Miðbikspróf 19. - 23. júní 2017

Í kjölfar áðurnefndra tölvupóstsamskipta við deildarforseta í maí 2017 gekkst kærandi undir svokallað miðbikspróf í doktorsnámi sem fram fór 19. - 23. júní 2017 í samræmi við 11. tl. 69. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009 og 14. gr. þágildandi reglna um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið nr. 642/2011, sbr. og verklagsreglur Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar um námsmat í doktorsnámi.

Hinn 5. ágúst 2017 sendi doktorsnefnd rökstudda niðurstöðu sína um prófið til framhaldsnámsnefndar. Var það mat doktorsnefndar að kærandi hefði ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar yrðu til doktorsnema á grundvelli þeirra viðmiða sem rakin væru í 2. gr. verklagsreglnanna. Niðurstaða nefndarinnar var því að kærandi hefði ekki staðist prófið og mælti doktorsnefndin með því að kæranda yrði gert að hætta námi. Hinn 25. ágúst 2017 sendi framhaldsnámsnefnd bréf til doktorsnefndarinnar. Í bréfinu var fallist á mat doktorsnefndarinnar um fall kæranda og tekið fram að það samrýmdist reglum um efnið. Í bréfinu var formanni doktorsnefndar falið að tilkynna kæranda um niðurstöðuna. Þá lýsti framhaldsnámsnefnd sig samþykka tillögu doktorsnefndarinnar um að kæranda yrði gert að hætta námi.

Beiðni um endurmat óháðs aðila á úrlausn miðbiksprófs og niðurstaða setts deildarforseta

Hinn 30. ágúst 2017 barst kæranda bréf frá verkefnisstjóra framhaldsnáms á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Í bréfinu var henni tilkynnt um framangreinda niðurstöðu og afstöðu framhaldsnámsnefndar, en hún fékk þó ekki sendan rökstuðning og umsögn doktorsnefndarinnar. Þá var kæranda jafnframt tilkynnt að henni væri gert að hætta doktorsnámi við deildina. Hefði hún þegar skráð sig áfram í doktorsnámið á komandi skólaári yrði hún skráð úr því og fengi skrásetningargjald endurgreitt.

Kærandi brást við þessari niðurstöðu með tölvupósti til verkefnastjóra 31. ágúst s.á. Þar kom fram að með tölvupósti verkefnastjórans hefði hún fyrst frétt af því að hún hefði ekki staðist miðbiksprófið. Óskaði kærandi eftir því að prófið og úrlausn þess yrði endurmetin af hlutlausum sérfræðingum á þessu sviði sem væru ótengdir HÍ.

Með tölvupósti 11. september s.á. upplýsti verkefnastjóri að teldi kærandi brotið á rétti sínum við mat á námsframvindu gæti hún sent formlegt erindi á deildarforseta skv. 50. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009. Þær leiðbeiningar voru áréttaðar í tölvupósti verkefnastjóra 12. september 2017 og í tölvupóstum aðstoðarrektors til kæranda 12., 13. og 14. s.m.

Í þessum samskiptum kom fram sú afstaða kæranda að hún teldi deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar vanhæfan til meðferðar málsins. Aðstoðarrektor ráðlagði henni engu að síður að senda erindið á deildarforseta, sem bæri að gera ráðstafanir væri hann vanhæfur til verksins. Hægt væri að senda afrit til sviðsforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Hinn 13. september, 26. s.m. og 2. október 2017 sendi kærandi erindi með umkvörtunum sínum á forseta sviðsins. Með bréfi dagsettu 13. nóvember 2017 var kæranda tilkynnt að deildarforseti Umhverfis- og byggingafræðideildar viki sæti í málinu og að forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs myndi taka erindi hennar til meðferðar, sem settur deildarforseti.

Í bréfi setts deildarforseta til kæranda, dags. 7. desember 2017, var henni tilkynnt að öllum kröfum hennar varðandi miðbiksprófið væri hafnað. Í fylgiskjölum með niðurstöðunni var kæranda annars vegar sendur rökstuðningur og umsögn doktorsnefndar frá 5. ágúst 2017 um úrlausn miðbiksprófsins og hins vegar bréf frá formanni framhaldsnámsnefndar til setts deildarforseta, dags. 5. desember s.á., þar sem m.a. fram kom sú afstaða nefndarinnar að færni kæranda myndi ekki aukast nægilega á tveimur mánuðum til þess að unnt væri að veita henni kost á að taka prófið aftur, sbr. 14. gr. reglna nr. 642/2011 um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og verklagsreglur.

Málskot kæranda til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands

Með erindi, dags. 27. mars 2017, bar kærandi málið undir kærunefnd í málefnum nemenda við HÍ. Með ákvörðun 3. júlí 2018 í máli nr. 2018/1, felldi kærunefndin ákvörðun setts deildarforseta úr gildi að því er varðaði ákvörðun um námslok kæranda í doktorsnáminu og lagði fyrir hann að taka mál kæranda fyrir að nýju og afgreiða það á lögmætan hátt. Var niðurstaða nefndarinnar að brotið hefði verið gegn rétti kæranda til að fá rökstuðning og umsögn um niðurstöðu miðbiksprófsins svo og gegn rétti hennar til að andmæla meðferð kærumáls hennar hjá deildarforseta. Jafnframt hefði verið brotið gegn rétti hennar til að andmæla og rökstuðnings við meðferð máls um þá ákvörðun að rifta samningi um RANNÍS-styrk til doktorsverkefnis hennar. Ákvarðanir setts deildarforseta um önnur atriði í kvörtun hennar varðandi miðbiksprófið og námsmat voru staðfestar. Öðrum atriðum var vísað frá nefndinni, þ.e. kröfum sem tengdust ágreiningi um ráðstöfun Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar á RANNÍS-styrknum. Jafnframt var vísað frá kröfum um að hún fengi að ljúka doktorsverkefni sínu, stuðning til að ljúka greinum tengdum verkefninu, að verja doktorsritgerð um efnið, að doktorsnemastyrkur hennar frá RANNÍS yrði greiddur og að kærunefndin skipaði nefndarmann í doktorsnámsnefnd hennar. Var kæranda jafnframt leiðbeint um að hægt væri að kæra ákvörðun nefndarinnar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2018, tilkynnti settur deildarforseti að mál kæranda yrði tekið fyrir að nýju í samræmi við niðurstöður kærunefndarinnar og að hann myndi fela framhaldsnámsnefnd Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar að taka nýja ákvörðun í málinu. Var kæranda veittur frestur til að skila andmælum vegna þessa. Niðurstaða framhaldsnámsnefndar var send kæranda 5. október s.á. Taldi nefndin sig ekki hafa forsendur til að hnekkja niðurstöðu doktorsnefndar um fall á miðbiksprófi og með vísan til 1. mgr. 14. gr. reglna nr. 642/2011 um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið tók framhaldsnámsnefnd ákvörðun um að kæranda yrði gert að hætta doktorsnámi sínu.

Í kjölfarið sendi kærandi skriflega kæru til setts forseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar, dags. 22. október 2018, þar sem gerðar voru athugasemdir við niðurstöðu framhaldsnámsnefndar auk þess sem gerðar voru frekari athugasemdir við meðferð málsins. Í ákvörðun setts deildarforseta 6. desember 2018 kom fram að beiðni hennar um prófdómara eða annan óháðan aðila til að endurmeta miðbikspróf hennar væri hafnað. Vakin var athygli á því að niðurstaðan væri kæranleg til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands.

Málskot til háskólaráðs Háskóla Íslands

Kærandi leitaði til háskólaráðs Háskóla Íslands með erindi, dags. 23. október 2018, þar sem hún óskaði eftir því að óháður aðili yrði fenginn til að endurmeta miðbiksprófið. Því erindi var vísað frá háskólaráði með vísan til þess að með 50. gr. reglna nr. 569/2009 hefði háskólaráð falið sérstakri kærunefnd í málefnum nemenda að fjalla um mál er vörðuðu réttindi og skyldur nemenda og því félli það utan úrskurðarvalds ráðsins að fjalla um erindi af þeim toga.

Kærandi bar þessa niðurstöðu háskólaráðs undir umboðsmann Alþingis með kvörtun, dags. 9. nóvember 2018. Í áliti, dags. 26. nóvember 2019 í máli nr. 9891/2018, kom fram að framangreind skipan mála væri ekki í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og að háskólaráði væri ekki heimilt að lögum að framselja úrskurðarvald sitt með innra valdframsali til kærunefndar í málefnum nemenda. Hefði því ákvörðun ráðsins frá 2. nóvember 2018 um að vísa frá erindi kæranda ekki verið í samræmi við lög og mæltist umboðsmaður til þess að háskólaráð tæki erindi kæranda til endurskoðunar, bærist beiðni frá henni þess efnis.

Með tölvupósti 29. nóvember 2019 óskaði kærandi eftir því á ný við háskólaráð að skipaður yrði prófdómari til að endurmeta miðbiksprófið sem hún þreytti í doktorsnámi sínu í júní 2017. Háskólaráð fjallaði um málið og benti m.a. á að í niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda Háskóla Íslands í máli kæranda nr. 2018/1 væri ekki tekin afstaða til þess hvernig beiðni kæranda horfði við ákvæði 3. mgr. 21. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla eða að öðru leyti tekin afstaða til þess hvort og þá hvernig reglur nr. 569/2009 fyrir HÍ, reglur nr. 642/2011 um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og verklagsreglur Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar um námsmat í doktorsnámi frá 12. desember 2011 samræmdust umræddu lagaákvæði.

Var það að endingu niðurstaða háskólaráðs, dags. 13. janúar 2020, að fyrirkomulag doktorsnámsins, þ.e.a.s. að fela fjölskipaðri doktorsnefnd sem skipuð væri sérfræðingum á því fagsviði sem við ætti hverju sinni, tryggði í reynd sama rétt og fælist í endurmati prófdómara skv. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 85/2008 og væri til þess fallið ná sama markmiði, þ.e.a.s. að tryggja efnislega rétt mat á prófúrlausn. Var beiðni kæranda um að skipaður yrði prófdómari til að endurmeta úrlausn hennar því synjað.

Kæra til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema

Kærandi kærði framangreinda ákvörðun til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema 6. febrúar 2020. Með úrskurði nefndarinnar 15. maí 2020 í máli nr. 1/2020 var ákvörðun háskólaráðs HÍ frá 13. janúar 2020, um að staðfesta ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands frá 3. júní 2018 og hafna ósk kæranda um prófdómara skv. 3. mgr. 21. laga nr. 85/2008, felld úr gildi og lagt fyrir HÍ að skipa prófdómara til að endurmeta miðbikspróf sem kærandi þreytti dagana 19. - 23. júní 2017. Öðrum kröfum kæranda var vísað frá nefndinni.

Skipun prófdómara og endurmat á miðbiksprófi

Í framhaldi af úrskurði áfrýjunarnefndarinnar var kæranda tilkynnt með tölvubréfi frá rektor HÍ 3. júlí 2020 að forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ hefði skiptað prófessor emeritus F prófdómara til að endurmeta miðbiksprófið í samræmi við 3. mgr. 59. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009, sbr. einnig 3. mgr. 21. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Þar sem sviðsforseti væri einnig settur deildarforseti í máli kæranda, hefði hann falið deildarforseta Iðnaðarverkfræði, vélarverkfræði- og tölvunarfræðideildar að vera settur deildarforseti í þessum þætti málsins og að prófdómari hefði verið skipaður að tillögu hans.

Með tölvubréfi 7. júlí 2020 andmælti kærandi skipun prófdómarans og taldi hann ekki hafa nauðsynlega þekkingu, auk þess sem hann hefði tengsl við formann doktorsnefndar sem gerði hann vanhæfan til að endurmeta prófið. Svar HÍ við þessu, sé það til staðar, liggur ekki frammi í málinu.

Prófdómarinn skilaði settum deildarforseta niðurstöðu sinni 13. ágúst 2020 þar sem sagði: „I went through all the documents sent by you. While I uphold the decision of the Doctoral Committee on the matter, I wish to mention that, if there is a provision for the candidate to reappear in the doctoral examination after addressing all the points raised by the committee, he/she may be given another chance. As such, based on the work presented by the candidate, the candidate failed the examination.“

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs óskaði eftir afstöðu doktorsnefndarinnar til þess hvort nefndin teldi ástæðu til að heimila kæranda að þreyta prófið öðru sinni. Með bréfi doktorsnefndar, dags. 4. september 2020, var kynnt sú niðurstaða nefndarinnar að ekki væri ástæða til að víkja frá fyrri afstöðu um að hafna endurtektarprófi. Með bréfi setts deildarforseta, dags. 8. september 2020, var kæranda tilkynnt um niðurstöðu prófdómarans og doktorsnefndarinnar. Þá kom fram að samkvæmt reglum um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands þyrfti nemandi að hætta doktorsnámi ef hann stæðist ekki miðbiksmat. Var kæranda gefinn 14 daga frestur til að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun um að víkja henni úr náminu.

Andmæli kæranda bárust 10. september 2020 þar sem hún ítrekaði sjónarmið um vanhæfi prófdómarans. Þá væri það brot á reglum háskólans að prófdómarinn hefði haft úrlausn doktorsnefndarinnar undir höndum við yfirferð sína. Loks benti kæranda á að það væri framhaldsnámsnefndin, en ekki doktorsnefndin, sem tæki ákvörðun um hvort kærandi mætti þreyta miðbiksprófið öðru sinni.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sendi framhaldsnámsnefnd umhverfis- og byggingarverkfræðideildar bréf, dags. 12. október 2020, þar sem hann óskaði eftir niðurstöðu framhaldsnámsnefndar um hvort kæranda yrði gert að hætta endanlega doktorsnámi sínu við Háskóla Íslands. Í bréfi nefndarinnar, dags. 6. nóvember s.á., sagði: „Eftir að hafa farið yfir gögn málsins, þar með talin andmæli [kæranda], er það mat framhaldsnámsnefndar Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar að ekkert hafi komið fram í málinu sem breyti fyrri ákvörðun. Framhaldsnámsnefnd sér ekki ástæðu til að efast um réttmæti niðurstöðu doktorsnefndarinnar. Álit utanaðkomandi prófdómara staðfestir það mat. Niðurstaða nefndarinnar er því sú að [kæranda] verði gert að hætta doktorsnámi sínu við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild.“

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sendi kæranda bréf, dags. 10. nóvember 2020, þar sem henni var tilkynnt að í samræmi við niðurstöðu framhaldsnámsnefndar væri henni gert að hætta doktorsnámi sínu við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Kærandi sendi sviðsforseta bréf, dags. 15. nóvember 2020, með andmælum, sem eru að mestu efnislega í samræmi við þær athugasemdir sem fram höfðu komið í bréfi kæranda, dags. 10. september s.á.

Kæra til háskólaráðs Háskóla Íslands

Þann 31. október 2020 barst háskólaráði Háskóla Íslands kæra frá kæranda þar sem kærð var skipun prófessors emeritus F sem prófdómara á miðbiksprófi kæranda. Í samræmi við 3. mgr. 50. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009, óskaði háskólaráð eftir því að kærunefnd í málefnum nemenda gæfi álit sitt á kærunni. Eftir að kæra barst háskólaráði var kæranda með bréfi setts deildarforseta í málinu, dags. 10. nóvember 2020, gert að hætta doktorsnámi við deildina, líkt og að framan er rakið. Í ljósi þessa taldi kærunefndin nauðsynlegt að kanna hvort þessi breytta staða hefði áhrif á efnistök kærunnar og uppfærði kærandi kröfugerð sína þannig að einnig var krafist ógildingar ákvörðunar um námslok.

Í áliti kærunefndar í málefnum nemenda frá 8. apríl 2021 í máli nr. 2020/5 var hvorki fallist á sjónarmið kæranda um vanhæfi prófdómara né voru gerðar athugasemdir við þau gögn sem prófdómaranum voru látin í té. Á hinn bóginn gerði kærunefndin athugasemdir við að kæranda hafi ekki verið leiðbeint um rétt til að fá útskýringar á mati skriflegrar úrlausnar. Að mati kærunefndarinnar leiddi þessi annmarki einn og sér ekki til ógildingar á niðurstöðu setts deildarforseta, dags. 10. nóvember 2020, en lagt er til í álitinu að settur deildarforseti leiðbeini kæranda um rétt hennar til að óska eftir útskýringum prófdómarans. Kærunefndin tók á hinn bóginn ekki undir með kæranda að það hafi verið hlutverk framhaldsnámsnefndar að meta rétt til endurupptöku prófs en ekki doktorsnefndar. Í því sambandi vísaði nefndin til þess að í 11. tölulið 69. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009 komi fram að doktorsnefnd beri ábyrgð á framkvæmd miðbiksprófsins. Þar sem reglur nr. 569/2009 séu æðri réttarheimild en reglur nr. 642/2011 um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið við HÍ hafi það verið í höndum doktorsnefndar að leggja mat á hvort heimila ætti kæranda að þreyta prófið öðru sinni.

Varðandi meint vanhæfi doktorsnefndar taldi kærunefndin að kærandi hefði ekki bent á neitt sem hönd væri á festandi um að hætta væri á því að ómálefnaleg sjónarmið gætu haft áhrif á ákvörðun doktorsnefndarinnar um hvort kæranda yrði heimilað að þreyta prófið öðru sinni. Annað og meira þyrfti því að koma til en að doktorsnefndin hafi áður fellt viðkomandi nemanda svo að telja mætti að óvild væri til staðar af hálfu nefndarmanna í garð nemanda. Í ljósi niðurstöðu málsins beindi kærunefndin þó þeim tilmælum til setts deildarforseta að kanna sérstaklega hvort vanhæfi kynni að vera til staðar, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefndin féllst heldur ekki á sjónarmið kæranda um vanhæfi framhaldsnámsnefndar.

Í ljósi þess að það væri hlutverk doktorsnefndar en ekki framhaldsnámsnefndar að segja til um hvort doktorsnemi mætti endurtaka próf og jafnframt með hliðsjón af því hversu íþyngjandi ákvörðun væri um að ræða, lagði kærunefndin til að ákvörðun setts deildarforseta 10. nóvember 2020, þar sem kæranda var gert að hætta doktorsnámi sínu, yrði felld úr gildi. Þá lagði nefndin til að þeim tilmælum yrði beint til doktorsnefndarinnar að ákvörðun um endurtektarpróf yrði tekin í samræmi við þær málsmeðferðarreglur sem um málefnið gildi. Yrði kæranda ekki veitt heimild til að endurtaka prófið yrði sú niðurstaða doktorsnefndarinnar að vera grundvölluð á rökstuddum og málefnalegum sjónarmiðum.

Með úrskurði í máli nr. 2020/5, dags. 6. maí 2021, felldi háskólaráð úr gildi ákvörðun setts deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar frá 10. nóvember 2020. Doktorsnefnd kæranda bæri því að taka á ný afstöðu til þess hvort kæranda yrði heimilað að endurtaka miðbikspróf í doktorsnámi. Kröfu kæranda um að prófdómari yrði endurskipaður var á hinn bóginn hafnað sem og sjónarmiðum hennar um vanhæfi doktors- og framhaldsnámsnefndar. Þá var það niðurstaða háskólaráðs að taka ekki undir þá tillögu kærunefndar í málefnum nemenda að kæranda yrði veittur kostur á frekari skýringum um mat prófdómara.

Kæra til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema

Kærandi kærði framangreinda ákvörðun til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema með kæru, dags. 30. júlí 2021. Með úrskurði nefndarinnar 14. mars 2022 í máli nr. 4/2021 var kröfu kæranda um að skipaður yrði nýr prófdómari til að endurmeta miðbikspróf sem kærandi þreytti dagana 19. - 23. júní 2017 hafnað. Þá féllst nefndin ekki á sjónarmið kæranda um vanhæfi prófdómara og taldi ekki sýnt fram á að draga mætti óhlutdrægni prófdómarans í efa. Kröfu kæranda um að nefndin tæki afstöðu til hæfis setts deildarforseta og deildarforseta við meðferð máls kæranda var vísað frá nefndinni að svo stöddu.

Eins og áður er rakið bar kærandi þessa niðurstöðu undir umboðsmann Alþingis með kvörtun, dags. 1. ágúst 2022. Í áliti, dags. 22. maí 2023 í máli nr. 11793/2022, komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að afstaða nefndarinnar um að það félli ekki undir valdsvið nefndarinnar, að svo stöddu, að taka afstöðu til hæfis þeirra starfsmanna sem hefðu komið að tilnefningu og skipun prófdómara í máli kæranda, hafi ekki verið í samræmi við lög. Í álitinu eru sett fram þau tilmæli umboðsmanns að nefndin tæki mál kæranda til meðferðar að nýju ef beiðni þess efnis bærist frá kæranda. Með tölvupósti þann 25. maí sl. óskaði kærandi eftir endurupptöku á framangreindum úrskurði nefndarinnar nr. 4/2021, líkt og áður er rakið.

Ákvörðun HÍ að kærandi fái ekki að endurtaka miðbikspróf og sé gert að hætta námi við HÍ

Eftir að niðurstaða háskólaráðs frá 6. maí 2021 um að fella úr gildi ákvörðun setts deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar frá 10. nóvember 2020 lá fyrir tók settur deildarforseti málið á ný til meðferðar. Settur deildarforseti tilkynnti kæranda með bréfi dags. 18. ágúst 2021 að hann hefði óskað eftir að doktorsnefnd kæranda tæki á ný afstöðu til þess hvort að heimila skyldi kæranda að endurtaka miðbiksprófið. Meðfylgjandi bréfinu var fyrirhuguð ákvörðun doktorsnefndarinnar og var kæranda gefinn frestur til 25. ágúst 2021 til að koma á framfæri andmælum við fyrirhugaða ákvörðun. Kærandi mótmælti því að þessi hluti málsins héldi áfram með tölvupósti þann 18. ágúst 2021 til setts deildarforseta þar sem kærandi hefði kært niðurstöðu háskólaráðs frá 6. maí 2021. Með bréfi setts deildarforseta dags. 7. október 2021 var kæranda tilkynnt um ákvörðun doktorsnefndar að kæranda yrði ekki heimilað að endurtaka miðbiksprófið. Vísað var til reglna nr. 995/2017 um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands en samkvæmt þeim tæki doktorsnefnd ákvörðun um hvort kæranda yrði endanlega gert að hætta doktorsnámi sínu við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild HÍ. Kæranda var veittur 14 daga frestur til að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun. Engin andmæli bárust. Með bréfi dags. 7. desember 2021 tilkynnti settur deildarforseti kæranda að kæranda yrði ekki heimilað að endurtaka miðbikspróf í doktorsnámi og að henni væri gert að hætta doktorsnámi sínu við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild HÍ.

Kæra til háskólaráðs Háskóla Íslands

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, kærði kærandi til háskólaráðs þá ákvörðun að henni yrði gert að hætta doktorsnámi sínu við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild HÍ. Í kærunni kemur fram að kærandi „hafni bæði málsmeðferð og niðurstöðu setts deildarforseta“. Í samræmi við 3. mgr. 50. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009 óskaði háskólaráð eftir því að kærunefnd í málefnum nemenda gæfi álit sitt á kærunni.

Í áliti kærunefndar í málefnum nemenda, dags. 31. maí 2022 í máli nr. 2022/1, vísaði kærunefndin til þess að málið ætti sér langan aðdraganda og að kærandi byggði á ýmsum sjónarmiðum og atvikum sem þegar hefði verið tekin endanleg afstaða til. Með hliðsjón af því taldi kærunefndin að eingöngu stæðu eftir tvö atriði sem taka yrði afstöðu til í málinu, annars vegar hvort deildarforseti, settur deildarforseti eða nefndarmenn doktorsnefndar hafi verið vanhæfir til meðferðar máls kæranda og hins vegar hvort ákvörðun doktorsnefndarinnar 7. október 2021 um að heimila kæranda ekki að taka miðbiksprófið öðru sinni hafi verið málefnaleg. Í tillögu kærunefndarinnar að niðurstöðu lagði kærunefndin til við háskólaráð að hafna sjónarmiðum kæranda um annars vegar vanhæfi deildarforseta, setts deildarforseta og nefndarmanna doktorsnefndar og hins vegar að ágallar hafi verið á ákvörðun doktorsnefndar 7. október 2021 um að heimila kæranda ekki að taka miðbiksprófið öðru sinni. Af þessu leiddi að kærunefndin lagði til við háskólaráð að hafna kröfu kæranda að ákvörðun setts deildarforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs 7. desember 2021, þar sem kæranda var gert að hætta námi, yrði ógilt.

Með úrskurði háskólaráðs 9. júní 2022 í máli nr. 2022/1 hafnaði háskólaráð kröfu kæranda með vísan til rökstuðnings sem fram kom í áliti kærunefndar í málefnum nemenda við HÍ.

Líkt og rakið er hér að framan lýtur kæra kæranda að framangreindum úrskurði háskólaráðs og þeim atriðum sem tiltekin eru í kæru kæranda og fjallað er um í kafla I hér að framan.

III.

Málsástæður aðila

Hér á eftir verða dregnar saman málsástæður kæranda að baki kæru hennar til nefndarinnar í fjórum liðum og sjónarmið Háskóla Íslands, eins og við á, í tengslum við hvern lið.

1. Málsmeðferð setts deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar (forseta Verkfræði- og náttúruvísindasvið) eftir ákvörðun háskólaráðs dags 6. maí 2021.

Kærandi byggir á því að réttur hennar til þess að kæra niðurstöðu háskólaráðs til áfrýjunarnefndarinnar hafi verið brotinn þar sem mál hennar hafi haldið áfram innan háskólans eftir að háskólaráð felldi úr gildi ákvörðun deildarforseta Umhverfis- og byggingar­verkfræði­deildar frá 10. nóvember 2020 þar sem kæranda var gert að hætta doktorsnámi við HÍ. Í niðurstöðu háskólaráðs kom fram að doktorsnefnd kæranda væri gert að taka á ný afstöðu til þess hvort að kæranda yrði heimilað að endurtaka miðbikspróf í doktorsnámi.

HÍ byggir á því að niðurstaða háskólaráðs um að fella úr gildi ákvörðun setts deildarforseta um að kæranda yrði gert að hætta doktorsnámi sínu við HÍ og leggja fyrir settan deildarforseta að taka málið á ný til meðferðar hafi falið það í sér að endanleg ákvörðun í máli kæranda hafi ekki legið fyrir. Ekki sé hægt að bera mál undir áfrýjunarnefndina fyrr en endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemanda liggur fyrir, sbr. 3. mgr. 1. gr. reglna um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema nr. 550/2020. Því hafi ekki verið hægt að kæra þennan þátt til áfrýjunarnefndarinnar þar sem endanleg ákvörðun HÍ hafi ekki legið fyrir.

2. Um meint vanhæfi setts deildarforseta, deildarforseta og doktorsnefndar

Kærandi gerir kröfu um að áfrýjunarnefndin taki afstöðu til hæfis deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar, setts deildarforseta framangreindrar deildar og doktorsnefndar vegna meðferðar á máli hennar og afleiðingar þess á málsmeðferðina teljist vanhæfi hafa verið til staðar.

Kærandi vísar til þess að ekki hafi formlega verið tekin afstaða til vanhæfis deildarforseta af hálfu háskólaráðs þó kærandi hafi bent á það og rökstutt í erindi sínu til ráðsins. Á fyrri stigum málsins hafi forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs aldrei úrskurðað formlega um hæfi deildarforseta þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir kæranda um vanhæfi hans, þar sem deildarforseti hafi sagt sig frá málinu. Formlegur úrskurður um hæfi hefði hins vegar haft áhrif á málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kærandi byggir á því að ekki sé unnt að skilja 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 öðruvísi en svo að vanhæfi einstaklings hafi mikil áhrif á meðferð máls. Þá sé ekki hægt að horfa fram hjá því að ef HÍ hefði úrskurðað deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar formlega vanhæfan þá hefði hann, ásamt öllum undirmönnum, þ.m.t. doktorsnefnd og framhaldsnámsnefnd, verið vanhæfur skv. 3. gr. laga nr. 37/1993 og málið fengið allt aðra meðferð.

Kærandi byggir á því að deildarforseti hafi verið vanhæfur vegna þess að hann hafi verið aðili málsins skv. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993. Nánar tiltekið telur kærandi að deildarforseti hafi verið vanhæfur vegna i) ósamkomulags milli hans og kæranda vegna hlutar Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftafræði í skrifstofukostnaði RANNÍS-styrksins, ii) ósamkomulags milli hans og kæranda um útgreiðslu styrksins til kæranda, iii) afskipta hans af svokölluðum beygjuprófum á steinsteyptum rörum sem fyrirhuguð voru en deildarstjóri hafi komið í veg fyrir og iv) ætlaðri þátttöku hans í endurgreiðslu á RANNÍS-styrk, en að mati kæranda hljóti deildarforseti að hafa tekið þátt í ákvörðuninni um endurgreiðslu. Kærandi byggir jafnframt á því að þótt deildarforseti telji sig ekki vanhæfan þýði það ekki að hann hafi verið hæfur.

Kærandi gerir einnig kröfu um að áfrýjunarnefndin taki afstöðu til hæfis setts deildarforseta Umhverfis- og verkfræðideildar til að fjalla aftur um mál kæranda vegna tengsla sinna við deildarforseta á árum áður, en sú deild sé hans undirdeild í dag þar sem hann gegni stöðu sviðsforseta fyrir fræðasviðið. Kærandi byggir á því að settur deildarforseti hafi verið vanhæfur á grundvelli 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að fara með mál hennar. Slíkt hljóti að vera óheppilegt fyrir meðferð málsins svo sem komi fram í niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda.

Kærandi byggir á því að settur deildarforseti og deildarforseti hafi unnið mjög náið saman í gegnum tíðina og því megi draga í efa óhlutdrægni setts deildarforseta, sem hafi því verið vanhæfur skv. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993. Þeir séu báðir með doktorspróf í byggingarverkfræði og hafi báðir verið í forsvari fyrir Umhverfis- og byggingarverkfræðideild síðastliðin 12 ár. Á árunum 2008-2014 hafi settur deildarforseti verið deildarforseti deildarinnar og deildarforseti gegnt stöðu aðstoðardeildarforseta. Á árunum 2014-2017 hafi þeir síðan skipt um sæti. Hinn 1. júlí 2017 hafi settur deildarforseti síðan verið skipaður forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og haustið 2017 hafi leiðbeinandi kæranda verið skipaður aðstoðardeildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar, aðeins tveimur mánuðum eftir að hann hafði skilað RANNÍS styrk kæranda. Umhverfis- og byggingarverkfræðideild sé ein af sex deildum háskólans sem séu undir stjórn setts deildarforseta sem sviðsforseta viðkomandi deilda. Vegna hinna miklu samvinnu milli deildarforseta og setts deildarforseta megi draga óhlutdrægni setts deildarforseta í málinu í efa.

Kærandi vekur einnig athygli á að kærunefnd í málefnum háskólanema hafi ekki talið það heppilegt að settur deildarforseti væri yfirmaður þeirrar deildar er málið varðaði og mælst til þess að í framtíðinni yrði það tekið til athugunar þegar skipa ætti settan deildarforseta. Þrátt fyrir þetta og gegn mótmælum kæranda hafi málið verið sett aftur í hendur forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, sem setts deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar. Kærandi bendir á að til að tryggja óháða málsmeðferð í máli kæranda hefði yfirmaður setts deildarforseta átt að úrskurða um hæfi hans, í þessu tilviki rektor, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 37/1993.

Kærandi gerir einnig kröfu um að áfrýjunarnefndin taki afstöðu til hæfis doktorsnefndar, þ.m.t. til C, leiðbeinanda kæranda. Kærandi byggir á því að fulltrúar í doktorsnefnd, þ.m.t. C, leiðbeinandi kæranda séu aðilar máls og því vanhæfir samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kærandi vísar til þess að málið snúist um prófdóm C og doktorsnefndar að því hljóti þeir að teljast aðilar málsins.

Að því er varðar meint vanhæfi aðila í doktorsnefnd vegna fyrri aðkomu vísar HÍ til þess að aðilar í doktorsnefnd hafi staðfest að vanhæfisástæður 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ættu ekki við um þá. Þá hafi kærandi ekki bent á neitt sem hönd sé á festandi um að hætta hafi verið á því að ómálefnaleg sjónarmið hefðu haft áhrif á ákvörðun doktorsnefndar um hvort kæranda yrði heimilað að þreyta miðbiksprófið öðru sinni. Það felist í eðli máls að doktorsnefnd sem taki ákvörðun um hvort nemanda sé heimilað að þreyta miðbikspróf öðru sinni hafi áður fellt viðkomandi nemanda. Annað og meira þurfi að koma til að nefndarmenn teljist vanhæfir. Þá vísar HÍ einnig til þess að ekki nægi að aðili málsins álíti starfsmann fjandsamlegan heldur verði einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður að liggja fyrir sem almennt verði taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni starfsmanns. Ekkert slíkt liggi fyrir í málinu.

HÍ hafnar því að settur deildarforseti í málinu sé vanhæfur til meðferðar málsins á grundvelli 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi hann enga sérstaka eða persónulega hagsmuni af málinu. Hann hafi tekið sæti sem settur deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar eftir að kærandi hafi gert athugasemdir við hæfi deildarforseta til þess að fjalla um málið vegna fyrri aðkomu hins síðarnefnda að málum er varða kæranda.

Í kjölfar niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands, dags. 3. júlí 2018, hafi settur deildarforseti tekið málið aftur til meðferðar vegna annmarka á fyrri meðferð þess. Í niðurstöðunni komi fram að setning setts deildarforseta hafi ekki verið andstæð lögum og reglum, og að ekki verði ályktað að hann hafi vegna fyrri aðkomu sinnar að málinu verið vanhæfur til þess að fara með málið.

Með tölvupóstum, dags. 7. og 8. ágúst 2018, til rektors Háskóla Íslands og setts deildarforseta, í kjölfar fyrrgreindrar niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda, hafi kærandi óskað eftir því að settur deildarforseti viki sæti og að annar aðili ótengdur Umhverfis- og byggingaverkfræðideild og Verkfræði- og náttúruvísindasviði yrði settur í hans stað til þess að afgreiða málið. Settur deildarforseti hafi tekið afstöðu til eigin hæfis eins og komi fram í bréfi hans til kæranda, dags. 21. ágúst 2018. Þá komi afstaða rektors Háskóla Íslands til hæfis setts deildarforseta fram í bréfi, dags. 22. ágúst 2018, til kæranda. Þar komi m.a. fram að með vísan til þess sem rakið sé í bréfinu þyki honum ekki ástæða til þess að settur deildarforseti víki sæti við meðferð máls hennar.

Þá bendir HÍ á að þegar kærunefnd í málefnum nemenda hafi haft málið til skoðunar, sem endað hafi með áliti nr. 2020/5, hafi kærunefndin óskað eftir upplýsingum frá settum deildarforseta, m.a. um hæfi hans. Í svari setts deildarforseta hafi verið vísað til fyrri niðurstöðu kærunefndarinnar um hæfi hans, sem áður hefur verið rakið. Í áliti kærunefndar nr. 2020/5 komi fram að ekki verði séð með hvaða hætti deildarforseti eigi sjálfur sérstaklega og verulegra hagsmuna að gæta af málinu, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi háskólaráð staðfest það mat. Þessu til viðbótar bendir HÍ á þá meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að starfsmaður verði ekki talinn vanhæfur til þess að fara með mál af þeirri ástæðu einni að hann hafi áður tekið stjórnvaldsákvörðun í því sem felld hafi verið úr gildi.

HÍ hafnar því ennfremur að deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar hafi verið vanhæfur til meðferðar máls kæranda. Hann hafi enga persónulega hagsmuni haft af málinu eða tengsl við málið. Þá teljist hann ekki aðili að málinu í skilningi 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísað sé til þess að deildarforseti hafi samt sem áður vikið sæti sem deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar við meðferð máls kæranda. Kæranda hafi verið tilkynnt um það með bréfi forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, dags. 13. nóvember 2017, og hann hafi í kjölfarið tekið við málinu sem settur deildarforseti. Í bréfinu komi fram að forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hafi óskað eftir afstöðu deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræði­deildar til eigin hæfis. Í bréfinu hafi jafnframt komið fram að deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar teldi sig ekki vanhæfan til meðferðar málsins en að hann hafi engu að síður talið farsælla að víkja sæti við afgreiðslu málsins. Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hafi fallist á þau sjónarmið og því ekki talið ástæðu til að taka formlega afstöðu til hæfis deildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar.

Varðandi málsástæðu kæranda um að hefði deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar verið úrskurðaður vanhæfur til meðferðar málsins þá hefðu allir undirmenn deildar hans, þ.m.t. aðilar í doktorsnefnd og framhaldsnámsnefnd, verið vanhæfir ítrekar HÍ það sem áður hefur komið fram um að ekkert bendi til þess að deildarforseti hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins. Auk þess hafi almennt verið talið að starfsmaður verði einungis vanhæfur á grundvelli sjónarmiða um undirmannavanhæfi ef yfirmaður hans eða yfirmenn hjá hlutaðeigandi stofnun eigi verulegra persónulegra hagsmuna að gæta en það eigi ekki við í máli þessu.

3. Krafa kæranda um skipun annars prófdómara vegna miðbiksprófs í doktorsnámi kæranda

Kærandi byggir á því að hinn skipaði prófdómari, prófessor emeritus F, hafi verið vanhæfur til verksins vegna tengsla við leiðbeinandann C. Þannig sé prófdómarinn aðjúnkt við Tribhuvan háskólann í Nepal eða sama skóla og leiðbeinandinn útskrifaðist frá. Þá hafi skipaður prófdómari verið vinnuveitandi tiltekins starfsmanns C hjá Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftafræði er viðkomandi vann doktorsritgerð sína við IIT-skólann í Delí og að prófdómarinn hefði skrifað sex vísindagreinar og fimm ráðstefnugreinar með umræddum starfsmanni. Umræddur starfsmaður hefði starfað hjá Rannsóknarmiðstöðinni í þrjú ár sem nýdoktor undir handleiðslu C. Sú staðreynd að prófdómarinn virðist koma úr kunningjasamfélagi C tefli hæfi hans í tvísýnu.

Kærandi byggir jafnframt á því að brotið hafi verið gegn 59. og 60. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 með því að prófdómari hafi fengið í hendur umsögn doktorsnefndar um miðbiksprófið. Með því hafi prófdómari vart geta framkvæmt sjálfstætt mat á prófinu, óháð fyrra mati. Vegna þessa hljóti niðurstaða prófdómarans að vera ógild og ómarktæk og háskólinn þurfi að endurskipa prófdómara, helst tvo. Sú endurskipun þurfi að vera framkvæmd af aðila sem hæfur sé til þess samkvæmt stjórnsýslulögum.

Kærandi byggir einnig á því að skipaður prófdómari hafi ekki gert óháða og sjálfstæða umsögn um prófið, líkt og honum beri samkvæmt 1. mgr. 60. gr. reglna nr. 569/2009. Vegna þess að prófdómari hafi enga slíka umsögn gert hafi kærandi engar prófútskýringar fengið, þrátt fyrir að 3. mgr. 21. gr. laga nr. 85/2008 og 2. mgr. 59. gr. reglna nr. 569/2009 kveði á um að nemandi eigi rétt á slíku.

HÍ vísar til þess að það hafi verið niðurstaða háskólaráðs þann 6. maí 2021 að hafna kröfu kæranda um að prófdómari verði endurskipaður. HÍ hafnar því að skipaður prófdómari í máli hennar, prófessor emeritus F, sé vanhæfur og vísar um þetta atriði til niðurstöðu kærunefndar í málefnum nemenda nr. 2020/5 og þeirra sjónarmiða sem koma fram í bréfi setts deildarforseta, dags. 10. nóvember 2020, um þetta atriði.

HÍ ítrekar að þær ástæður sem kærandi byggir á að valdi vanhæfi setts prófdómara séu ekki þess eðlis að þær valdi vanhæfi í skilningi 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 5. gr. stjórnsýslulaga komi fram að starfsmaður, sem viti um ástæður er kunni að valda vanhæfi hans, skuli án tafar vekja athygli yfirmanns stofnunar á þeim. Í niðurstöðum setts prófdómara í málinu, dags. 13. ágúst 2020, taki hann afstöðu til eigin hæfis og staðfesti að engar þær vanhæfisástæður sem 3. gr. stjórnsýslulaga kveða á um eigi við um hann. Þá komi fram í bréfi setts deildarforseta, dags. 10. nóvember 2020, að það væri niðurstaða hans að þær mögulegu vanhæfisástæður sem taldar hafi verið upp í andmælabréfi kæranda til rektors væru ekki þess eðlis að um vanhæfi í skilningi 3. gr. stjórnsýslulaga væri að ræða.

HÍ vísað einnig til þess að í áliti sínu, dags. 8. apríl 2021, hafi kærunefnd í málefnum nemenda tekið undir sjónarmið setts deildarforseta. Í áliti kærunefndar komi fram að þótt prófdómarinn og formaður doktorsnefndar hafi átt sameiginlega samstarfsmenn í fræðasamfélaginu og hafi tengsl við sömu menntastofnanir verði ekki fallist á að náin tengsl séu á milli þeirra eða aðstæður séu að öðru leyti til þess fallnar að draga óhlutdrægni prófdómarans í efa. Þá hafi prófdómarinn sjálfur lagt mat á eigið hæfi og talið engar vanhæfisástæður eiga við um sig.

HÍ hafnar einnig þeirri málsástæðu kæranda að settur prófdómari hafi ekki getað veitt óháða og sjálfstæða umsögn um prófið, líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 60. gr. reglna nr. 569/2009, þar sem hann hafi fengið úrlausn doktorsnefndarinnar í hendurnar. Þvert á móti telji HÍ ljóst að settur prófdómari hafi sjálfur endurmetið prófúrlausn kæranda. Í 3. mgr. 21. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 komi m.a. fram að vilji nemandi, sem ekki hafi staðist próf, ekki una mati kennara geti hann snúið sér til viðkomandi forseta. Skuli þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Þá sé í 59. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands fjallað um prófdómara og rétt stúdenta til að fá útskýringar. Í 60. gr. reglnanna sé fjallað um prófverkefni og mat úrlausna. Þar komi m.a. fram að kennari og prófdómari, ef tilkallaður sé, dæmi hvor um sig úrlausn í prófgrein hverri. Hvor um sig gefi sjálfstætt einkunn fyrir úrlausnina og gildi þær jafnt í einkunnagjöf.

HÍ byggir á því að engar frekari reglur sé að finna um útfærslu á því hvernig prófdómarar skuli haga störfum sínum eða hvernig málsmeðferðin eigi að vera. Hvorki í ofangreindum lögum né reglum komi fram að prófdómara sé óheimilt að hafa séð mat kennara á prófúrlausninni áður en hann endurmeti prófið. Eina skilyrðið sé að prófdómarinn meti prófið og gefi einkunn sjálfstætt. Í tilviki kæranda hafi settur prófdómari endurmetið sjálfstætt prófúrlausn kæranda í samræmi við framangreint ákvæði. HÍ fái ekki séð að það dragi úr sjálfstæði setts prófdómara að hann hafi séð mat doktorsnefndarinnar á miðbiksprófinu áður en hann hafi sjálfur lagt á það mat.

Þá hafnar HÍ því sem haldið er fram í kæru að prófdómari hafi enga óháða og sjálfstæða umsögn veitt um prófið og því hafi kærandi ekki fengið neinar prófskýringar í andstöðu við 3. mgr. 21. gr. laga um opinbera háskóla og 2. mgr. 59. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands sem kveði á um að nemandi eigi rétt á að fá útskýringar á mati skriflegra lausna óski hann þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. HÍ hafnar því alfarið að kærandi hafi ekki fengið skýringar prófdómara á mati á prófúrlausninni enda hafi prófdómarinn gert rökstuðning doktorsnefndarinnar að sínum. Þar sem niðurstöðu setts prófdómara um endurmat á miðbiksprófi kæranda, dags. 13. ágúst 2020, hafi fylgt skrifleg skýring á niðurstöðunni, hafi ekki verið þörf á að leiðbeina kæranda um rétt til útskýringa samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum.

4. Höfnun háskólaráðs á ógildingu á brottrekstri kæranda úr doktorsnámi við HÍ

Kærandi gerir kröfu um að niðurstaða háskólaráðs um að kæranda verði gert að hætta doktorsnámi sínu við HÍ, verði felld úr gildi. Kærandi byggir á því að mat doktorsnefndar á miðbiksprófi kæranda hafi ekki verið forsvaranlegt. Kærandi vísar til þess að rökstuðningur doktorsnefndar á miðbiksprófi kæranda standist ekki skoðun. Þessu til stuðnings vísar kærandi til þess að kærandi hafi skömmu fyrir miðbiksprófið skrifað rannsóknaráætlun fyrir RANNÍS sem faglegir matsmenn hafi gefið mjög góða einkunn. Þá hafi kærandi samið útdrátt að væntanlegri grein fyrir Evrópsku jarðskjálftaráðstefnuna og það bendi til þess að kærandi hafi vel ráðið við það efni sem um ræðir.

HÍ vísar til rökstuðnings sem fram kemur í áliti kærunefndar í málefnum nemenda frá 31. maí 2022. Þar kemur fram að það hafi verið niðurstaða doktorsnefndar að kæranda yrði ekki heimilað að þreyta miðbiksprófið öðru sinni. Kærunefndin í málefnum nemenda hafi óskað eftir nánari rökstuðningi frá doktorsnefnd kæranda. Í álitinu komi fram að djúpstæður ágreiningur sé á milli kæranda og doktorsnefndarinnar um tiltekin atriði miðbiksprófsins. Að mati háskólaráðs sé rökstuðningur doktorsnefndarinnar frá 5. maí 2022 ítarlegur og greinargóður. Þá verði ekki annað séð en að um málefnaleg sjónarmið sé að ræða og að það hafi verið heildstætt mat doktorsnefndar kæranda að kæranda skorti undirstöðuþekkingu á efninu og færni sem nauðsynleg væri til að heimila endurtekt á miðbiksprófi. Þá komi fram í 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 að háskólaráð endurmeti ekki faglegar niðurstöður kennara eða prófdómara og ekki sé ástæða til þess að endurskoða niðurstöðu doktorsnefndar kæranda um að heimila kæranda ekki að endurtaka miðbiksprófið. Af því leiði að rétt hafi verið að víkja kæranda úr námi í samræmi við 12. gr. reglna nr. 995/2017 um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ, en HÍ líti svo á að umræddar reglur gildi um ákvörðun setts deildarforseta frá 7. desember 2021 að víkja kæranda úr námi.

IV.

Niðurstaða

Ágreiningur þessa máls, að mati nefndarinnar, snýr eins og rakið er í kafla III að eftirfarandi fjórum atriðum (i) málsmeðferð setts deildarforseta (forseta verkfræði- og náttúruvísindadeildar) eftir ákvörðun háskólaráðs dags 6. maí 2021, (ii) hæfi setts deildarforseta, deildarforseta og doktorsnefndar kæranda, þ.m.t. hæfi C, (iii) kröfu um skipun annars prófdómara vegna miðbiksprófs í doktorsnámi kæranda og útskýringar á niðurstöðu prófdómara, og (iv) kröfu um ógildingu á brottrekstri kæranda úr doktorsnámi við HÍ.

Mál kæranda hefur átt sér langan aðdraganda og verið tekið fyrir nokkrum sinnum hjá bæði háskólaráði og nefndinni. Kærandi hefur þegar fengið endanlega úrlausn um kröfu sína á útskýringum á niðurstöðu doktorsnefndar á miðbiksprófi, sem fjallað var um í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 1/2020. Verður því ekki tekin afstaða til þess atriðis í úrskurði þessum.

Eins og rakið er að framan óskaði kærandi, í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis, eftir endurupptöku á úrskurði nefndarinnar í máli kæranda gegn HÍ nr. 4/2021. Nefndin fellst á að beiðni kæranda um endurupptöku á framangreindu máli. 

1. Málsmeðferð setts deildarforseta Verkfræði- og náttúruvísindadeildar eftir ákvörðun háskólaráðs dags. 6. maí 2021.

Eins og rakið er að ofan telur kærandi að settur deildarforseti Verkfræði- og náttúruvísindadeildar hafi brotið gegn rétti kæranda með því að taka mál kæranda að nýju til meðferðar eftir að háskólaráð hafði fellt úr gildi ákvörðun setts deildarforseta frá 10. nóvember 2020 um að kæranda yrði gert að hætta doktorsnámi sínu við HÍ. Með niðurstöðunni var lagt fyrir doktorsnefnd að taka á ný afstöðu til þess hvort að kæranda yrði heimilað að endurtaka miðbiksprófið. Kærandi kærði niðurstöðu háskólaráðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Settur deildarforseti hélt þó áfram með málið að því leyti að hann óskaði á ný eftir afstöðu doktorsnefndar kæranda hvort að heimila ætti kæranda að endurtaka miðbiksprófið.

Að mati nefndarinnar er ljóst að fyrir lá á þessum tíma að ákvörðun setts deildarforseta um að kæranda skyldi gert að hætta doktorsnámi sínu við HÍ hefði verið felld úr gildi með úrskurði háskólaráðs. Af því leiðir að ekki lá fyrir endanleg ákvörðun HÍ hvað það varðaði og því ekki heimilt að kæra þann þátt málsins til nefndarinnar, sbr. 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006, sbr. og 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf nefndarinnar og VII. kafla stjórnsýslulaga. Ekki verður því séð að mati nefndarinnar að settum deildarforseta hafi verið óheimilt að halda áfram með málið enda hafði fyrri ákvörðun hans hafði verið felld úr gildi með úrskurði háskólaráðs. Við þær aðstæður telur nefndinni að settum deildarforseta hafi borið að taka mál kæranda fyrir á nýjan leik í samræmi við úrskurð háskólaráðs og óska eftir afstöðu doktorsnefndar á ný til þess hvort að kæranda yrði heimilað að endurtaka miðbiksprófið. Við þá málsmeðferð bar settum deildarforseta að gæta að þeim atriðum sem komu fram í úrskurði háskólaráðs og áliti kærunefndar í málefnum nemenda frá 8. apríl 2021 að því er varðaði málsmeðferð og rökstuðning doktorsnefndar kæranda.

Verður því ekki fallist á með kæranda að meðferð setts deildarforseta á málinu að þessu leyti hafi verið aðfinnsluverð.

2. Meint vanhæfi setts deildarforseta, deildarforseta og doktorsnefndar kæranda.

Kærandi byggir á því að settur deildarforseti, deildarforseti og doktorsnefnd hafi verið vanhæf til meðferðar máls kæranda frá upphafi, eins og rakið er að ofan.

  1. Um vanhæfi deildarforseta

    Eins og rakið er að ofan telur kærandi að deildarforseti hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins þar sem hann hafi verið aðili málsins, sbr. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telur kærandi að þar sem deildarforseti hafi verið vanhæfur séu allir undirmenn hans í sömu deild, þ.m.t. aðilar í doktorsnefnd, vanhæfir til meðferðar máls kæranda.

    Deildarforseti ákvað að eigin frumkvæði að víkja sæti við meðferð máls kæranda og tilkynnti hann kæranda um það með bréfi þann 13. nóvember 2017. Í því bréfi kom jafnframt fram að settur deildarforseti tæki yfir mál kæranda. Í bréfi deildarforseta kom fram að hann teldi sig ekki vanhæfan til meðferðar málsins en teldi þó rétt í ljósi kröfu kæranda að víkja sæti við meðferð málsins.

    Í 2. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að yfirmaður stofnunar ákveði hvort að starfsmanni hennar beri að víkja sæti. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla kemur fram að stjórn háskóla sé falin háskólaráði og rektor. Í 8. gr. sömu laga segir m.a. að rektor sé yfirmaður stjórnsýslu háskóla og æðsti fulltrúi gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans. Þá stýri rektor daglegri starfsemi skólans ásamt því að bera ábyrgð á og hafa eftirlit með allri starfsemi háskólans. Á milli funda háskólaráðs fari rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans. Er því ljóst að rektor er yfirmaður HÍ í skilningi 2. gr. 5. gr. stjórnsýslulaga.

    Að mati nefndarinnar hefði deildarforseta borið að tilkynna rektor um framkomnar athugasemdir kæranda við hæfi deildarforseta strax árið 2017. Það var ekki gert og í hans stað tók forseti fræðasviðsins við meðferð málsins sem settur deildarforseti.

    Almennt er gert ráð fyrir því í framkvæmd að ef málsaðili gerir kröfu um að tiltekinn starfsmaður víki sæti við meðferð máls hans skuli viðkomandi starfsmaður vekja athygli yfirmanns stofnunar á framkominni kröfu þess efnis. Slík framkvæmd tryggir að leyst sé úr slíkri kröfu af hálfu yfirmanns stofnunar og þá jafnframt að viðkomandi yfirmaður setji staðgengil telji hann að vanhæfi sé til staðar eða ef aðrar ástæður mæli með því að viðkomandi starfsmaður sinni ekki málinu.

    Þrátt fyrir þennan annmarka á málsmeðferð við afgreiðslu á kröfu kæranda vegna vanhæfis deildarforseta verður ekki séð að það hafi haft áhrif á mál kæranda. Aðili máls hefur í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið skilgreindur sem aðili sem hefur einstaklega, verulega eða lögmæta hagsmuni af úrlausn máls. Ekki verður séð af gögnum málsins að deildarforseti hafi neinna einstaklegra, verulegra eða lögmætra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, og er því ekki aðili máls í skilningi 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.

    Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir um 6. tölul. að mjög náin vinátta eða fjandskapur við aðila máls geti valdið vanhæfi. Svo að vinátta valdi vanhæfi nægi ekki að aðeins sé um að ræða kunningsskap eða að fyrir hendi séu þær aðstæður, t.d. á fámennum stöðum, að „allir þekki alla“, heldur verður vináttan að vera náin. Svo óvinátta valdi vanhæfi verði að vera um að ræða einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verði taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni starfsmanns. Ekki nægi að aðili máls álíti starfsmann sér fjandsamlegan. Hins vegar, í þeim tilvikum þar sem slegið hafi í brýnu með starfsmanni og aðila máls og annar hvor hafi sýnt af sér óviðeigandi framkomu eða viðhaft ósæmilegt orðbragð, myndi starfsmaður talinn vanhæfur, a.m.k. þar sem úrslit máls hefðu verulega þýðingu fyrir aðila. Ekkert liggur fyrir í málinu um sérstaka óvild deildarforseta gagnvart kæranda, eða nokkuð annað sem gæti valdið vanhæfi á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.

    Með hliðsjón af framangreindu er ekki fallist á að deildarforseti hafi verið vanhæfur til meðferðar máls kæranda.

  2. Um vanhæfi setts deildarforseta

    Kærandi hefur byggt á því að settur deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar, sem jafnframt er forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, hafi verið vanhæfur til meðferðar máls kæranda eins og nánar er rakið að ofan. Kærandi hefur vakið máls á afstöðu sinni til þess að settur deildarforseti teljist vanhæfur í fjölda tilvika við meðferð málsins.

    Í bréfi til kæranda frá rektor 22. ágúst 2018 kom fram sú afstaða rektors að hann teldi ekki ástæðu til þess að settur deildarforseti viki sæti við meðferð máls kæranda. Liggur því fyrir að yfirmaður stofnunarinnar sem um ræður hefur tekið afstöðu til meints vanhæfis í samræmi við 2. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

    Kærandi hefur sett fram ýmis sjónarmið sem snúa að meintu vanhæfi setts deildarforseta til meðferðar máls kæranda, m.a. með vísan til þess að settur deildarforseti og deildarforseti séu samstarfsmenn til langs tíma. Þá hefur kærandi vísað til þess að settur deildarforseti hafi verið forseti fræðasviðsins sem Umhverfis- og byggingarverkfræðideild tilheyrir, og að deildarforseti þeirrar deildar væri aðili málsins og því vanhæfur. Af því leiði að settur deildarforseti hafi verið vanhæfur á grundvelli sjónarmiða um undirmannavanhæfi.

    Að mati nefndarinnar er ekkert sem liggur fyrir í málinu sem bendir til þess að settur deildarforseti hafi verið vanhæfur til meðferðar máls kæranda. Settur deildarforseti er ekki aðili málsins, þar sem hann hefur ekki einstaklega, verulega eða lögmætra hagsmuna að gæta af úrlausn þess, sbr. fyrri umfjöllun um aðild.

    Þá telst hann ekki vanhæfur á grundvelli sjónarmiða um undirmannavanhæfi. Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum kemur fram um 5. tölul. að þegar mál varði mjög nána samstarfsmenn starfsmanns verulega verði starfsmaður ekki vanhæfur á grundvelli 5. tölul. Hins vegar gæti hann orðið vanhæfur á grundvelli 6. tölul. í slíkum tilvikum. Verður samkvæmt framangreindu ekki litið svo á að settur deildarforseti sé vanhæfur á grundvelli 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga þó að settur deildarforseti og deildarforseti séu samstarfsmenn.

    Þá telur nefndin að settur deildarforseti sé ekki vanhæfur á grundvelli 6. tölul. þar sem ekkert liggur fyrir í málinu að því er varðar tengsl setts deildarforseta við deildarforseta eða óvild setts deildarforseta gagnvart kæranda, sem valdið geti vanhæfi setts deildarforseta.

    Með hliðsjón af framangreindu er ekki fallist á að settur deildarforseti hafi verið vanhæfur til meðferðar máls kæranda.

  3. Um vanhæfi doktorsnefndar

Kærandi hefur byggt á því að meðlimir doktorsnefndar, þ.m.t. C, leiðbeinandi kæranda, hafi verið vanhæfir til meðferðar máls kæranda þar sem meðlimir nefndarinnar séu aðilar málsins í skilningi 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að mati nefndarinnar er ekki hægt að fallast á að meðlimir doktorsnefndar kæranda teljist aðilar málsins í skilningi 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki verður séð meðlimir doktorsnefndar kærandi hafi sérstaka, verulega eða lögvarða hagsmuni af niðurstöðu í máli kæranda. Í framkvæmd hefur ekki verið litið svo á að kennarar eða prófdómarar teljist til aðila stjórnsýslumáls þó þeir fari yfir prófúrlausnir, gefi einkunnir eða veiti vitnisburði um frammistöðu nemanda.

Kærandi hefur einnig byggt á því að meðlimir doktorsnefndar, og þá sérstaklega C, hafi haft einbeittan brotavilja með því að skrifa rangan vitnisburð um niðurstöðu kæranda á miðbiksprófinu.

Að mati nefndarinnar hefur kærandi ekki sett fram nein haldbær rök eða gögn sem styðja þær fullyrðingar hennar að meðlimir doktorsnefndar séu sérstakir óvildarmenn kæranda eða ætla megi að þeir séu vanhæfir til meðferðar máls kæranda. Þá liggur fyrir afstaða allra meðlima doktorsnefndarinnar þar sem þeir taka afstöðu til hæfis síns og telja sig ekki vanhæfa til meðferðar máls kæranda. Að mati nefndarinnar er ekki tilefni til þess að draga þá afstöðu í efa.

Nefndin telur þó rétt að árétta að rétt hefði verið að vekja athygli rektors á kröfu kæranda um að meðlimir doktorsnefndar vikju sæti og vísast til umfjöllunar hér að ofan varðandi það. Sá annmarki á málsmeðferð verður þó ekki talinn vera þess eðlis að ætla megi að hafi haft áhrif á meðferð málsins eða niðurstöðu doktorsnefndarinnar að því er varðar prófúrlausn á miðbiksprófi kæranda.

3. Krafa kæranda um skipun annars prófdómara vegna miðbikspróf í doktorsnámi kæranda og útskýringar á niðurstöðu prófdómara

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og gögn er að mati nefndarinnar ekki uppi réttmætur efi um óhlutdrægni prófdómarans og þau tengsl sem kærandi víkur að eru ekki þess eðlis að þau valdi vanhæfi að lögum. Þó prófdómari og leiðbeinandi kæranda, C, hafi átt sameiginlega samstarfsmenn í fræðasamfélaginu og hafi að einhverju leyti tengsl við sömu menntastofnanir, getur nefndin ekki fallist á að slík tengsl séu á milli þeirra að draga megi óhlutdrægni prófdómarans í efa. Nefndin fellst ekki á sjónarmið kæranda um vanhæfi prófdómara og tekur undir þau sjónarmið sem birtast í áliti kærunefndar í málefnum nemenda frá 8. apríl 2021 í máli nr. 2020/5.

Kærandi telur að óheimilt hafi verið að afhenda prófdómara mat doktorsnefndarinnar á miðbiksprófinu áður en hann lagði sjálfur á það mat. Í ákvæðum laga um háskóla nr. 63/2006, laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og reglna Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um doktorsnám er ekki mælt fyrir um þau gögn sem afhenda skuli prófdómara vegna mats hans á miðbiksprófi í doktorsnámi. Nefndin óskaði sérstaklega eftir nánari upplýsingum frá HÍ um hvort aðrar reglur eða viðmið væru til um slíka afhendingu gagna og fékk þau svör að svo væri ekki. Er þannig ekki við neinar reglur að styðjast við úrlausn á því hvaða gögn hafi verið rétt að afhenda prófdómaranum. Valdsvið nefndarinnar er afmarkað í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf nefndarinnar, og samkvæmt því endurmetur nefndin ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Þar sem engar lagareglur mæla fyrir um þau gögn sem leggja skuli fyrir prófdómara getur nefndin ekki dregið aðrar ályktanir en að heimilt sé að afhenda prófdómara fyrri úrlausn prófs. Það breyti þó ekki þeim skyldum prófdómara að meta prófið og gefa einkunn sjálfstætt í samræmi við 59. og 60. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Þá hefur kærandi byggt á því að hafa ekki fengið útskýringar á niðurstöðu prófdómara þrátt fyrir að hafa margoft óskað eftir slíkum rökstuðningi. Fyrir liggur í málinu að prófdómari staðfesti niðurstöðu doktorsnefndar varðandi úrlausn kæranda á miðbiksprófinu. Ekki verður því annað séð að mati nefndarinnar en að prófdómari hafi gert rökstuðning doktorsnefndar að sínum. Þar sem kærandi hefur fengið afrit af þeim rökstuðningi telur nefndin að kærandi hafi fengið útskýringar á mati prófdómara í samræmi við 3. mgr. 21. gr. laga nr. 85/2008.

4. Krafa um ógildingu á úrskurði háskólaráðs, dags. 9. júní 2022.

Með úrskurði háskólaráðs þann 9. júní 2022 var hafnað kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun setts deildarforseta, dags. 7. desember 2021, þess efnis að kæranda yrði gert að hætta doktornámi sínu við HÍ.

Að því er varðar úrlausn þessa kæruefnis telur nefndin rétt að árétta að það er mat nefndarinnar að reglur 995/2017 um doktorsnám við Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, með síðari breytingum, gildi að því er varðar málsmeðferð HÍ um að víkja kæranda úr námi.

Í 2. mgr. 12. gr. reglna nr. 995/2017 kemur fram að ef nemandi standist ekki námsmat, sem felst í mati á almennri fræðilegri þekkingu nemandans á meginfræðasviðum tengdum sérsviði rannsóknarverkefnis, skuli nemandanum gert að hætta doktorsnámi og skal ákvörðunin rökstudd skriflega.

Við meðferð máls kæranda hjá háskólaráði óskaði kærunefnd í málefnum nemenda eftir frekari rökstuðningi doktorsnefndar kæranda. Þá kom kærandi á framfæri athugasemdum við þann rökstuðning doktorsnefndarinnar. Í málinu liggur fyrir afstaða doktorsnefndar varðandi athugasemdir kæranda og hvort þær gefi tilefni til þess að doktorsnefndin endurskoði afstöðu sína að veita kæranda ekki kost á því að endurtaka miðbiksprófið. Að mati doktorsnefndarinnar gáfu athugasemdir kæranda ekki tilefni til þess að endurskoða þá ákvörðun.

Í 2. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema kemur fram að nefndin endurmeti ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara.

Það er ljóst af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu að ágreiningur er um faglega niðurstöðu doktorsnefndar kæranda að því varðar námsmat hennar á miðbiksprófi kæranda og niðurstöðu doktorsnefndarinnar að heimila kæranda ekki að endurtaka miðbiksprófið. Með hliðsjón af fyrrnefndri 2. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 getur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema þó ekki endurmetið prófúrlausn kæranda á miðbiksprófinu né faglega niðurstöðu doktorsnefndar um að heimila kæranda ekki að endurtaka miðbiksprófið.

Að mati áfrýjunarnefndar er ekkert sem liggur fyrir í málinu sem bendir til þess að úrlausn doktorsnefndar eða rökstuðningur doktorsnefndarinnar sé ómálefnalegur eða ófaglegur. Þá er sá rökstuðningur doktorsnefndarinnar sem fyrir liggur frá 5. maí 2022, og kom til að kröfu kærunefndar í málefnum nemenda, ítarlegur og greinargóður.

Með hliðsjón af framangreindu er það því mat nefndarinnar að hafna kröfu kæranda um ógildingu á úrskurði háskólaráðs frá 9. júní 2022.

Með vísan til alls framangreinds verður að hafna öllum kröfum kæranda. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Öllum kröfum kæranda er hafnað.

 

Elvar Jónsson

 

Pétur Marteinn Urbancic Tómasson                              Eva Halldórsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum